torfkofinn.is

Categories
Garðurinn

Hvernig á að smíða matjurtakassa?

Hvernig á að smíða matjurtakassa?

Það að eiga sinn eigin matjurtakassa og geta ræktað sitt eigið grænmeti er eitthvað sem allir garðeigendur geta auðveldlega gert. Þar sem kolefnisspor eru mikið í umræðunni þessa dagana þá datt mér í hug að fara yfir það í grófum dráttum hvernig þú getur smíðað matjurtakassa til þess að rækta þitt eigið grænmeti í garðinum heima.

Það eru til allskonar leiðir sem hægt er að fara þegar kemur að matjurtagörðum. En hér ætla ég að segja frá því hvernig þú getur búið til upphækkaðan matjurtakassa. Upphækkaðir matjurtakassar koma sér vel t.d. ef þú ert ekki í fullkomnu formi og ert ekki reiðubúin/nn til þess að vinna á hnjánum yfir grænmetinu.

Það er nefninlega mikilvægt að hafa í huga að það að smíða kassann sjálfan er bara hluti af verkefninu, en framtíðarverkefnið er síðan að rækta grænmetið og leggja í vinnuna sem því fylgir. Þessvegna er mikilvægt að þú fáir þér kassa sem er í hentugri vinnuhæð.

Athugaðu að það mikilvægasta við matjurtakassann þinn er jarðvegurinn sem þú setur í hann og hvernig þú hugsar um innihaldið í honum, en ekki endilega hvernig kassinn sjálfur lítur út. Þó það sé auðvitað alltaf kostur að kassinn sjálfur komi vel út í garðinum.

Fyrsta skrefið er að ákveða hvar kassinn á að vera. Mikilvægt er að velja sólríkan og skjólgóðan stað. Best er að staðsetja hann þar sem sólin mun skína á hann allan daginn, eða að mestum hluta. Það er allt í lagi að láta kassann standa láréttan, en best er ef hann hallar örlítið niður í suður til þess að hann hitni fyrr upp á vorin. En passa þarf þá að hallinn sé ekki of mikill. Mikilvægt er að hafa gott aðgengi að kassanum á allar hliðar til þess að hægt sé að vinna í kringum kassann, og ef þú þarft að komast að kassanum með hjólbörur eða vélar.

Þar sem þessi kassi er upphækkaður og því ekki með tengingu við jarðveginn þá skiptir ekki beint máli hvaða undirlag er undir kassanum.  Svo fremi sem kassinn getur staðið beinn og verður ekki fyrir mikilli lyftingu undan jarðveginum þá skiptir mestu máli bara að undirlagið sé eins slétt og hægt er og þægilegt sé að standa og vinna í kringum hann.

Næst er að ákveða stærðina á kassanum. Við upphækkunina eru notaðar europallettur, en rúmmál á einni europallettu er 80x120x14,4sm svo hægt er að smíða kassann utan um eina pallettu og hafa hann þá lítinn og nettan 80×120, eða að raða tveimur pallettum langsum saman svo kassinn verði 80x240sm, eða bara hvað sem þér dettur í hug. En hér í þessari grein mun ég sýna kassa sem var gerður 80x240sm.

Næst þarf að stafla pallettunum saman. Þú ræður alveg hversu margar hæðir þú notar af pallettum. En botninn með moldinni þarf alltaf að vera sirka 30 sm. Svo með því að stafla t.d. fjórum hæðum af pallettum, og gefa svo botninum 30 sm ofan á palletturnar þá mun kassinn enda í sirka 100 sm hæð. Það er einmitt svipuð hæð og flestar eldhúsinnréttingar, og það er alveg ágætis vinnuhæð. Ef þú vilt hafa kassann þinn lægri þá fækkarðu bara fjöldanum af hæðum af pallettum. En mundu eftir að hafa alltaf dýpt moldarinnar 30 sm sama hvað.

Næst þarf að búa til grindina fyrir kassann. En þá er 27×95 festar utan á palletturnar til að binda þær saman og þær standa uppúr í þá hæð sem kassinn mun enda í, eða 30 sm fyrir ofan topphæð á pallettum. Fimm spítur fara á hverja langhlið og tvær á styttri hliðarnar.

Síðan er utaná klæðningin 22×95 sett utan um grindina allan hringinn, upp í þá hæð sem kassinn á að vera.

Nú þegar kassinn sjálfur er tilbúinn þá þarf að undirbúa hann undir matjurtirnar.

Fyrst þarf að klæða kassann að innan með takkadúk, en þetta er gert til þess að vernda viðinn fyrir rakanum sem kemur frá moldinni, og líka til þess að loka fyrir það að moldin leki ofan í raufarnar á pallettunum. Hægt er að festa takkadúkinn annaðhvort með heftibyssu, eða stuttum pappasaum nöglum með stórum haus. þegar búið er að festa hann er mjög mikilvægt að skera nokkur löng göt í dúkinn í botninn til þess að vatn getið lekið niður úr kassanum.

Í byrjun vors þegar þú sáir fyrir grænmetinu þínu þarftu að setja akrýldúk yfir kassann til þess að vernda grænmetið fyrir næturfrosti. Ef þú ert með kartöflur eða grænmeti sem vex aðallega ofan í moldinni gæti dugað að setja dúkinn beint yfir kassann. En ef þú ert að rækta t.d. kál þá er gott að setja upphækkun undir dúkinn.

Upphækkunina er hægt að búa til með því að festa spennur á langhliðina, báðum megin, ofarlega á innra máli kassans, og stinga síðan rafmagnsrörum í spennurnar til að mynda boga sem akrýldúkurinn getur lagst yfir.

Næst er sett smá lag af Sigursteinum í botninn á kassanum. (Hér er mikilvægt að steinarnir sem notaðir eru séu ekki of grófir og í góðri kornastærð) og svo er lagður Akryldúkur yfir mölina til þess að hindra moldina frá því að leka ofan í mölina.

Næst er að fylla kassann af mold, en mikilvægt er að velja rétta mold. Ef þú ætlar að rækta kartöflur í kassanum er best að setja sandblandaða mold í kassann, 70% mold og 30% vikursandur, en passa þarf þó að sandurinn sem notaður er sé ekki skeljasandur. Ef þú ætlar að rækta grænmeti í kassanum þá þarf moldarblandan að vera blanda af steinhreinsaðri mold, moltu og skeljasandi. Á höfuðborgarsvæðinu er hægt að kaupa mold sem er blönduð nú þegar í hlutföllunum 60% mold, 20% molta og 20% skeljasandur.

Þegar kemur að festingum á kassann til þess að halda akrýldúknum á sínum stað, þá hef ég prufað alls kyns leiðir. En sú leið sem mér hefur litist best á hingað til er að kaupa upphengjur og skrúfa á langhliðina á kassanum. og leggja svo 35×45 efni í hengjurnar og vefja dúknum um spítuna. En 35×45 efnið hefur ágætlega mikla þyngd í sér sem gerir að það verkum að það heldur dúknum föstum niðri svona í flestum vor veðrum.

Akrýldúkurinn þarf svo að vera á kassanum sirka fram í lok júní, en þá ætti að vera óhætt að taka dúkinn af og geyma fram á næsta vor ef hann er í góðu standi.

 

Fyrirvarar

  • Ég er ekki smiður, og hef aldrei þóst vera smiður, en þegar kemur að garðyrkju hef ég kynnt mér alls konar verklag sem getur komið sér vel að kunna tengt því sem ég er að gera í görðum fólks. Ég er skrúðgarðyrkjufræðingur og sjálfskipaður þúsundþjalasmiður.
  • Ég hef smíðað þó nokkra matjurtakassa og enginn þeirra er eins. En til gamans má geta þess að fyrir lokaverkefnið mitt í Garðyrkjuskólanum vann ég og tveir aðrir snillingar, þeir Einar Örn jónsson og Jóhann Böðvar Skúlason matjurtagarðinn útí Viðey, sem var hannaður og byggður í anda Skúla fógeta.

Ef þú hefur áhuga á að fá matjurtakassa í garðinn þinn, en getur ekki eða vilt ekki smíða hann sjálf/ur, endilega sendu mér þá línu á torfkofinn@torfkofinn.is og ég get komið honum upp fyrir þig svo þú getir einbeitt þér að ræktuninni.

deila

Facebook
Twitter
Email
Prenta

fleiri greinar

Hvernig á að gróðursetja tré?

Áður en byrjað er að gróðursetja þarf að velta fyrir sér nokkrum punktum: Athugaðu aðstæður, hugsa þarf hvaða plöntur henta í beðið og staðsetninguna sem þú hefur uppá að bjóða.

Lesa »
Categories
Garðurinn

Sex umhverfisvænar leiðir til að eitra fyrir illgresi

Sex umhverfisvænar leiðir til að eitra fyrir illgresi

“Hvernig er best að drepa arfann á stéttinni minni?” er líklega ein af algengustu spurningum sem ég hef fengið á öllum mínum starfsferli. Þegar ég fæ þessa spurningu svara ég alltaf með því að segja að það er lang best að drepa arfann í stéttinni á umhverfisvænan hátt. En þær aðferðir sem eru taldar upp hér á eftir eru ekki eingöngu umhverfisvænar gagnvart jörðinni, heldur hafa þær ekki heldur slæm áhrif á gæludýrin okkar og fuglana í kring.

Eitur eins og t.d. Round-up eða Casoron, hefur mjög slæm áhrif á umhverfið og þessvegna mæli ég eindregið með að fólk blandi sér bara sína eigin eiturblöndu heima, sem hefur ekki eins skaðleg áhrif á umhverfið eða dýrin í kring.

Ég vil taka það fram að þessi grein er aðallega ætluð fyrir arfa á stéttum þar sem þessar aðferðir hafa áhrif á allann gróður, ekki bara einhverjar ákveðnar tegundir. Svo að ef þú vilt losna við arfa í beði sem er fullt af trjám, runnum, fjölæringum eða sumarblómum þá mæli ég ekki með að eitra beðið yfir höfuð, þar sem eiturblandan mun hafa áhrif á allann gróður sem lausnin snertir.

Einnig þarft þú að vera varkár varðandi allan gróður í kringum stéttina, og passa að hella eiturblöndunni ekki of nálægt t.d. grasinu sem liggur upp við stéttina. En þá áttu á hættu á að blandan geti drepið grasið líka.

1. Heitt vatn

Hitaðu vatn í hraðsuðukatlinum og helltu sjóðandi heitu vatni yfir arfann. Heita vatnið brennir arfann svo hann ætti að deyja innan nokkurra klukkustunda.

2. Vodki

Blandaðu vatni og vodka saman í hlutföllunum 6:1 (6 vatn, 1 vodki) bættu síðan nokkrum dropum af Dr. Bronner’s, eða annarri umhverfisvænni sápu útí. Þú þarft ekki að setja marga dropa af sápunni þar sem tilgangur hennar er eingöngu að brjóta upp spennuna í blöndunni svo að blandan festist betur við arfann. Þannig mun plantan taka blönduna betur inn.

3. Edik

Bæði er hægt að spreyja hreinu ediki á arfann, en svo er líka hægt að bæta við nokkrum dropum af Dr. Bronner’s, eða annarri umhverfisvænni sápu fyrir betri bindingu.

4. Salt

Finndu ódýrasta saltið í búðinni, blandaðu svo heitu vatni og saltinu í hlutföllum 3:1 (3 vatn, 1 salt) Settu blönduna í úðabrúsa og spreyjaðu á arfann.

Salt er ódýr lausn sem auðvelt er að framkvæma. Saltið þurrkar upp plöntuna og truflar innra vatnsjafnvægi plöntufrumanna, svo á endanum munu þær deyja.
Stundum þarf að spreyja plönturnar oftar ein einu sinni með saltvatnslausninni.

Ekki setja saltið beint á stéttina nema þú sért að fara að skola því niður strax með vatni. Saltið getur haft mikil áhrif á gróðurinn umhverfis stéttina.

5. Eldur

Klárlega mest töff leiðin hingað til – Brenndu arfann upp með gasbrennara. Einföld, fljótleg og skilvirk leið til að eyða arfanum algjörlega. – Og þú færð að vera hellað töff í leiðinni.

6. Sprengjan

Ef þú vilt búa til kraftmikla blöndu getur þú sameinað liði 3 og 4 og búið til blöndu úr Ediki og salti, blandað 8:1 (8 edik, 1 salt). Bættu svo við nokkrum dropum af Dr. Bronner’s, eða annarri umhverfisvænni sápu fyrir betri bindingu.

Fyrirvarar:

  • Ég tengist Dr.Bronner’s ekki neitt, og fæ ekkert geitt fyrir að minnast á vörurnar hér á síðunni (a.m.k ekki eins og er #lúmsktshoutoutútíkosmósið). Mér finnst þessar vörur bara svo frábærar að ég get ekki sleppt því að minnast á þær þegar kemur að öllum sápuumræðum sem ég kem nálægt.

  • Ég viðurkenni fúslega að ég hef verið ein af þeim sem hefur óspart notað Round-up og Casoron áður á æfinni. En vil á engann hátt taka þátt í þeim bransa lengur og þessvegna mæli ég því með, og nota sjálf, eingöngu umhverfisvænar aðferðir til að eitra fyrir illgresi í dag. Ég er alltaf opin fyrir því að líta á mínar eigin hegðanir og breyta því sem betur má fara.

  • Það að eitra fyrir arfa er aldrei að fara að vera endanleg lausn. Eins og Ian Malcolm orðaði svo vel í fyrstu Jurassic park myndinni: “Life finds a way”. Plönturnar munu alltaf koma upp aftur á endanum. En það er þitt hlutverk sem garðeigandi að sjá um garðinn, hreinsa séttina og halda plöntunum þínum í góðu standi. Rétt eins og þú málar húsið þitt, gerir við þakið, fylgist með rafmagnstöflunni og passar uppá að stífla ekki vaskinn. 
    Garðurinn þarf á viðhaldi að halda. Það er staðreynd sem aðeins hugurinn þinn getur ákveðið að sé neikvætt fyrirbrigði.

  • Skilgreining á illgresi samkvæmt orðabók: Illgresi, -is h, Ónytsamur gróður í ræktuðu landi, er spillir vexti ræktunarjurta.
    Eða í öðrum orðum: Planta sem vex þar sem hún á ekki að vaxa.

Höfundur: Kristín Snorradóttir

deila

Facebook
Twitter
Email
Prenta

fleiri greinar

Hvernig á að gróðursetja tré?

Áður en byrjað er að gróðursetja þarf að velta fyrir sér nokkrum punktum: Athugaðu aðstæður, hugsa þarf hvaða plöntur henta í beðið og staðsetninguna sem þú hefur uppá að bjóða.

Lesa »
Categories
Garðurinn

Hvernig á að gróðursetja tré?

Hvernig á að gróðursetja tré?

Í þessari grein er farið gróflega yfir það hvernig á að gróðursetja tré, og að lokum verður farið yfir nokkur svör við spurningum sem ég hef fengið.

Áður en byrjað er að gróðursetja þarf að velta fyrir sér nokkrum punktum:

  • Athugaðu aðstæður, hugsa þarf hvaða plöntur henta í beðið og staðsetninguna sem þú hefur uppá að bjóða.
  • Er jarðvegurinn góður eða þarf að fríska aðeins uppá hann?
  • Er nægilegt rótarpláss fyrir þá plöntu sem ég hef í huga? 
  • Passa þarf uppá radíusinn á plássinu sem plantan hefur. Mikilvægt er að hugsa útí framtíð plöntunnar, og möguleikann á því að þú persónulega munt mögulega ekki sjá um plöntuna það sem eftir er af lífi hennar.
  • Hvernig á plantan að snúa? Athugaðu hver fallegasta hliðin á plöntunni er og láttu hana snúa þannig að hún líti sem best úr frá þeirri átt sem horft er mest á hana.

1. skref

Grafið holu sem er tvisvar eða þrisvar sinnum breiðari en hnausinn á plöntunni, en holan þarf ekki að vera mikið dýpri en hæðin á hnausnum sjálfum.

2. skref

Takið plöntuna úr pottinum og rífið rótarköggulinn örlítið í sundur. Ef rótarhnaus plöntunnar er pakkaður inn í striga er mikilvægt að losa hann af. 

3. skref

Setjið plöntuna ofan í holuna. Athugið hvort rótarháls plöntunnar sé ekki örugglega í svipaðri hæð og efsta yfirborð jarðvegsins verður. Mikilægt er að planta trénu ekki of djúpt ofan í jarðveginn. Ef holan er aðeins of djúp er best að fylla uppí hana eins og þarf áður en fyllt er síðan upp í restina af holunni.

4. skref

Eftir að moldin er komin ofan í þarf að þjappa vel með höndum og fótum, án þess að skaða plöntuna.

5. skref

Stráið áburði yfir svæðið sem rótarhnausinn náði yfir, og vökvið jarðveginn vel.

6. skref

Ef téð sem þú plantar er hærra en 1 metri þarf að binda það upp. Ekki þarf að binda upp runna eða lítil tré. Oft er líka hægt að taka tillit til þess hvort tréð standi í miklu skjóli, þá er jafnvel hægt að sleppa við uppbindingar yfir höfuð.

SVÖR VIÐ SPURNINGUM SEM ÉG HEF FENGIÐ:

Hvenær er besti tíminn til að gróðursetja?
Besti tíminn til að planta trjám og runnum á Íslandi er á vorin og á haustin. Það er allt í lagi að planta á sumrin, en þá þarf að fylgjast vel með plöntunni og vökva á hverjum degi fyrstu vikurnar eftir plöntun til þess að plantan verði ekki fyrir vökvatapi og skrælni upp. Ef plantað er á vorin þarf einnig að vökva vel, en ef plantað er á haustin er hægt að komast upp með að vökva minna og nýta haustrigninguna sér til hags.

Hvernig vökva ég?
Planta tekur vatn inn um ræturnar. Ekki nægir að vökva bara yfir pöntuna sjálfa. Svo þegar vökvað er þarf að vökva jarðveginn í kringum plöntuna svo að ræturnar nái að taka inn vatnið.

Einnig þarf að passa vel að vökva ekki yfir laufblöðin á sólríkum degi. þannig geta laufblöðin brunnið og skaðast illa.

Hvernig áburð á ég að nota?
Td. hænsnaskítur er góður, líka Blákorn.

Því dýpra því betra?
Passa þarf að gróðursetja plöntuna ekki of djúpt. Það er gömul speki að því dýpra sem plantað er því betra hefur tréð það. En það er ekki rétt. Ég hef gengið inn í garð þar sem öll trén í garðinum hölluðu um amk 30 gráður, og þegar komið var við þau sveigðust þau til því þau voru svo laus. Þeim hefur nefninlega ekki tekist að rótfesta sig almennilega og þegar stofninn var skoðaður var hægt að sjá nokkurra sm breiða rák allann hringinn þar sem yrsta lag stofnsins hafði rotnað vegna rakans sem myndast þegar moldin leggst að stofninum til lengri tíma.

Við viljum gróðursetja tréð í þannig hæð að aðeins þunnt moldarlag leggst yfir rótarhnaus plöntunnar, og stofninn stendur upp úr moldinni. Oft er hægt að sjá litla rák við rótarstofninn eftir því hversu djúpt trénu hefur verið pantað í gróðrarstöðinni, best er að miða við þá rák.

Má ég ekki bara planta trénu í pottinum eða striganum?
Ef potturinn eða striginn er skilinn eftir á rótarhnaus plöntunnar mun plantan aldrei rótfesta sig. Þó að pokinn sé úr lífrænu efni er hann aldrei að fara að brotna niður á miklum hraða við aðstæðurnar hér á Íslandi. Ég persónulega tek alltaf pokann í burtu. sumir opna bokann og skilja hann eftir ofan í holunni. En ég persónulega vil frekar bjóða trénu upp á eins góð lífsgæði og ég mögulega get boðið því uppá og fjarlægi því strigann alveg.

deila

Facebook
Twitter
Email
Prenta

fleiri greinar

Hvernig á að gróðursetja tré?

Áður en byrjað er að gróðursetja þarf að velta fyrir sér nokkrum punktum: Athugaðu aðstæður, hugsa þarf hvaða plöntur henta í beðið og staðsetninguna sem þú hefur uppá að bjóða.

Lesa »
Categories
Garðurinn

Garðverk eftir árstíðum

Garðverk eftir árstíðum

Í þessari grein hef ég skrifað niður lista af þeim verkþáttum sem best er að huga að við hverja árstíð fyrir sig í garðinum.

Þessi listi er gerður til þess að hjálpa þér til að vita betur hvenær best er að leggja af stað í verk í garðinum Hvort sem þú ætlar að vinna verkið sjálf/ur eða að fá skrúðgarðyrkjufræðing til að sjá um verkið fyrir þig.

Vetur
Des - jan - feb

  • Taka inn viðkvæmar plöntur fyrir veturinn
  • Fræ Lerkis og Stafafuru losna yfirleitt úr könglinum í kringum áramót
  • Vetrargræðlingar

VOR
MARS - APRÍL - MAÍ

KLIPPING

– Vorið er tíminn fyrir grisjun
– Krónuklippingar
– Trjáfellingar (en þó betra að fella Aspir á sumrin eða haustin)
– Endurnýjun limgerðis – td Viðir, Fjallarifs, Blátoppur og Gljámispill.
– Rósir – klipptar um það leiti sem brumin byrja að þrútna
– Birki og Hlynur – klippt um það leiti sem laufgun hefst.

LAUKAR

– Haustlaukar blómstra á vorin
– Vorlaukar eru settir niður á vorin, og blómstra á sumrin. Vorlauka má setja niður um miðjan mars og fram í maí.

MATJURTARGARÐURINN OG GRÓÐURHÚSIÐ

– Undirbúningur jarðvegs fyrir ræktun
– Forspírun kartaflna tekur 4-6 vikur
– Kartöflur settar niður
– Sáð í bakka
– Sáning og uppeldi sumarblóma tekur u.þ.b. 2 mánuði

 

ÁBURÐARGJÖF

– Áburðargjöf og kalk á grasflöt snemma í maí
– Áburðargjöf fjölæringa snemma vors, einu sinni á ári.

UMHIRÐA

– Vorhreinsun
– Raka yfir grasflötina með laufhrífu þar sem mosi og lauf eru fjarlægð
– Sáning grasfræja
– Ekki slá grasið áður en grasið fer að vaxa.

MEINDÝR

Meindýr fara á kreik á vorin

FLEIRA

– Flutningur trjáa
– Þökulögn
– Hellulögn

SUMAR
JÚNÍ - JÚLÍ - ÁGÚST

  • Plöntun sumarblóma og fjölæringa
  • Gróðursetning trjáa og runna
  • Vorlaukar blómstra á sumrin
  • Sumargræðlingar klipptir þegar lengdarvexti sprota er um það bil að ljúka.
  • Klipping: runnar mótaðir og snirtir.
  • Trjáfelling
  • Kálflugan fer á stjá um miðjan júní.
  • Áburðargjöf á grasflöt tvisvar yfir vaxtartímann. Síðasta áburðargjöfin gerð fyrripart ágúst með minni skammt en þær fyrri.
  • Hellulögn
  • Þökulögn

Haust
Sept - okt - nóv

  • Sumarblómum skipt út fyrir harðgerðar haustplöntur
  • Haustlaukar eru settir niður á haustin fyrir fyrsta frost, í sept eða okt.
  • Sáning grasfræja mánuði fyrir fyrsta frost.
  • Tré þroska yfirleitt fræ á haustin
  • Fræ grenis losna yfirleitt úr könglunum um miðjan október.
  • Sveppatínsla
  • Gróðursetning trjáa og runna – besti tíminn til þess er einmitt á haustin.
  • Flutningur trjáa
  • Undirbúa viðkvæmar plöntur fyrir veturinn
  • Hellulögn
  • Þökulögn
  •  

deila

Facebook
Twitter
Email
Prenta

fleiri greinar

Hvernig á að gróðursetja tré?

Áður en byrjað er að gróðursetja þarf að velta fyrir sér nokkrum punktum: Athugaðu aðstæður, hugsa þarf hvaða plöntur henta í beðið og staðsetninguna sem þú hefur uppá að bjóða.

Lesa »