torfkofinn.is

Hvernig á að gróðursetja tré?

Í þessari grein er farið gróflega yfir það hvernig á að gróðursetja tré, og að lokum verður farið yfir nokkur svör við spurningum sem ég hef fengið.

Áður en byrjað er að gróðursetja þarf að velta fyrir sér nokkrum punktum:

  • Athugaðu aðstæður, hugsa þarf hvaða plöntur henta í beðið og staðsetninguna sem þú hefur uppá að bjóða.
  • Er jarðvegurinn góður eða þarf að fríska aðeins uppá hann?
  • Er nægilegt rótarpláss fyrir þá plöntu sem ég hef í huga? 
  • Passa þarf uppá radíusinn á plássinu sem plantan hefur. Mikilvægt er að hugsa útí framtíð plöntunnar, og möguleikann á því að þú persónulega munt mögulega ekki sjá um plöntuna það sem eftir er af lífi hennar.
  • Hvernig á plantan að snúa? Athugaðu hver fallegasta hliðin á plöntunni er og láttu hana snúa þannig að hún líti sem best úr frá þeirri átt sem horft er mest á hana.

1. skref

Grafið holu sem er tvisvar eða þrisvar sinnum breiðari en hnausinn á plöntunni, en holan þarf ekki að vera mikið dýpri en hæðin á hnausnum sjálfum.

2. skref

Takið plöntuna úr pottinum og rífið rótarköggulinn örlítið í sundur. Ef rótarhnaus plöntunnar er pakkaður inn í striga er mikilvægt að losa hann af. 

3. skref

Setjið plöntuna ofan í holuna. Athugið hvort rótarháls plöntunnar sé ekki örugglega í svipaðri hæð og efsta yfirborð jarðvegsins verður. Mikilægt er að planta trénu ekki of djúpt ofan í jarðveginn. Ef holan er aðeins of djúp er best að fylla uppí hana eins og þarf áður en fyllt er síðan upp í restina af holunni.

4. skref

Eftir að moldin er komin ofan í þarf að þjappa vel með höndum og fótum, án þess að skaða plöntuna.

5. skref

Stráið áburði yfir svæðið sem rótarhnausinn náði yfir, og vökvið jarðveginn vel.

6. skref

Ef téð sem þú plantar er hærra en 1 metri þarf að binda það upp. Ekki þarf að binda upp runna eða lítil tré. Oft er líka hægt að taka tillit til þess hvort tréð standi í miklu skjóli, þá er jafnvel hægt að sleppa við uppbindingar yfir höfuð.

SVÖR VIÐ SPURNINGUM SEM ÉG HEF FENGIÐ:

Hvenær er besti tíminn til að gróðursetja?
Besti tíminn til að planta trjám og runnum á Íslandi er á vorin og á haustin. Það er allt í lagi að planta á sumrin, en þá þarf að fylgjast vel með plöntunni og vökva á hverjum degi fyrstu vikurnar eftir plöntun til þess að plantan verði ekki fyrir vökvatapi og skrælni upp. Ef plantað er á vorin þarf einnig að vökva vel, en ef plantað er á haustin er hægt að komast upp með að vökva minna og nýta haustrigninguna sér til hags.

Hvernig vökva ég?
Planta tekur vatn inn um ræturnar. Ekki nægir að vökva bara yfir pöntuna sjálfa. Svo þegar vökvað er þarf að vökva jarðveginn í kringum plöntuna svo að ræturnar nái að taka inn vatnið.

Einnig þarf að passa vel að vökva ekki yfir laufblöðin á sólríkum degi. þannig geta laufblöðin brunnið og skaðast illa.

Hvernig áburð á ég að nota?
Td. hænsnaskítur er góður, líka Blákorn.

Því dýpra því betra?
Passa þarf að gróðursetja plöntuna ekki of djúpt. Það er gömul speki að því dýpra sem plantað er því betra hefur tréð það. En það er ekki rétt. Ég hef gengið inn í garð þar sem öll trén í garðinum hölluðu um amk 30 gráður, og þegar komið var við þau sveigðust þau til því þau voru svo laus. Þeim hefur nefninlega ekki tekist að rótfesta sig almennilega og þegar stofninn var skoðaður var hægt að sjá nokkurra sm breiða rák allann hringinn þar sem yrsta lag stofnsins hafði rotnað vegna rakans sem myndast þegar moldin leggst að stofninum til lengri tíma.

Við viljum gróðursetja tréð í þannig hæð að aðeins þunnt moldarlag leggst yfir rótarhnaus plöntunnar, og stofninn stendur upp úr moldinni. Oft er hægt að sjá litla rák við rótarstofninn eftir því hversu djúpt trénu hefur verið pantað í gróðrarstöðinni, best er að miða við þá rák.

Má ég ekki bara planta trénu í pottinum eða striganum?
Ef potturinn eða striginn er skilinn eftir á rótarhnaus plöntunnar mun plantan aldrei rótfesta sig. Þó að pokinn sé úr lífrænu efni er hann aldrei að fara að brotna niður á miklum hraða við aðstæðurnar hér á Íslandi. Ég persónulega tek alltaf pokann í burtu. sumir opna bokann og skilja hann eftir ofan í holunni. En ég persónulega vil frekar bjóða trénu upp á eins góð lífsgæði og ég mögulega get boðið því uppá og fjarlægi því strigann alveg.

deila

Facebook
Twitter
Email
Prenta

fleiri greinar

Hvernig á að gróðursetja tré?

Áður en byrjað er að gróðursetja þarf að velta fyrir sér nokkrum punktum: Athugaðu aðstæður, hugsa þarf hvaða plöntur henta í beðið og staðsetninguna sem þú hefur uppá að bjóða.

Lesa »