Hvernig á að smíða matjurtakassa?
Það er lítið mál að smíða þinn eigin matjurtakassa í garðinn, matjurtir eru bæði einfaldar í ræktun og kassinn er skemmtileg tilbreyting í garðinn.
Það að eiga sinn eigin matjurtakassa og geta ræktað sitt eigið grænmeti er eitthvað sem allir garðeigendur geta auðveldlega gert. Þar sem kolefnisspor eru mikið í umræðunni þessa dagana þá datt mér í hug að fara yfir það í grófum dráttum hvernig þú getur smíðað matjurtakassa til þess að rækta þitt eigið grænmeti í garðinum heima.
Það eru til allskonar leiðir sem hægt er að fara þegar kemur að matjurtagörðum. En hér ætla ég að segja frá því hvernig þú getur búið til upphækkaðan matjurtakassa. Upphækkaðir matjurtakassar koma sér vel t.d. ef þú ert ekki í fullkomnu formi og ert ekki reiðubúin/nn til þess að vinna á hnjánum yfir grænmetinu.
Það er nefninlega mikilvægt að hafa í huga að það að smíða kassann sjálfan er bara hluti af verkefninu, en framtíðarverkefnið er síðan að rækta grænmetið og leggja í vinnuna sem því fylgir. Þessvegna er mikilvægt að þú fáir þér kassa sem er í hentugri vinnuhæð.
Athugaðu að það mikilvægasta við matjurtakassann þinn er jarðvegurinn sem þú setur í hann og hvernig þú hugsar um innihaldið í honum, en ekki endilega hvernig kassinn sjálfur lítur út. Þó það sé auðvitað alltaf kostur að kassinn sjálfur komi vel út í garðinum.
View this post on InstagramA post shared by Kristín Snorradóttir (@kristinsnorra) on
Fyrsta skrefið er að ákveða hvar kassinn á að vera. Mikilvægt er að velja sólríkan og skjólgóðan stað. Best er að staðsetja hann þar sem sólin mun skína á hann allan daginn, eða að mestum hluta. Það er allt í lagi að láta kassann standa láréttan, en best er ef hann hallar örlítið niður í suður til þess að hann hitni fyrr upp á vorin. En passa þarf þá að hallinn sé ekki of mikill. Mikilvægt er að hafa gott aðgengi að kassanum á allar hliðar til þess að hægt sé að vinna í kringum kassann, og ef þú þarft að komast að kassanum með hjólbörur eða vélar.
Þar sem þessi kassi er upphækkaður og því ekki með tengingu við jarðveginn þá skiptir ekki beint máli hvaða undirlag er undir kassanum. Svo fremi sem kassinn getur staðið beinn og verður ekki fyrir mikilli lyftingu undan jarðveginum þá skiptir mestu máli bara að undirlagið sé eins slétt og hægt er og þægilegt sé að standa og vinna í kringum hann.
Næst er að ákveða stærðina á kassanum. Við upphækkunina eru notaðar europallettur, en rúmmál á einni europallettu er 80x120x14,4sm svo hægt er að smíða kassann utan um eina pallettu og hafa hann þá lítinn og nettan 80×120, eða að raða tveimur pallettum langsum saman svo kassinn verði 80x240sm, eða bara hvað sem þér dettur í hug. En hér í þessari grein mun ég sýna kassa sem var gerður 80x240sm.
Næst þarf að stafla pallettunum saman. Þú ræður alveg hversu margar hæðir þú notar af pallettum. En botninn með moldinni þarf alltaf að vera sirka 30 sm. Svo með því að stafla t.d. fjórum hæðum af pallettum, og gefa svo botninum 30 sm ofan á palletturnar þá mun kassinn enda í sirka 100 sm hæð. Það er einmitt svipuð hæð og flestar eldhúsinnréttingar, og það er alveg ágætis vinnuhæð. Ef þú vilt hafa kassann þinn lægri þá fækkarðu bara fjöldanum af hæðum af pallettum. En mundu eftir að hafa alltaf dýpt moldarinnar 30 sm sama hvað.
Næst þarf að búa til grindina fyrir kassann. En þá er 27×95 festar utan á palletturnar til að binda þær saman og þær standa uppúr í þá hæð sem kassinn mun enda í, eða 30 sm fyrir ofan topphæð á pallettum. Fimm spítur fara á hverja langhlið og tvær á styttri hliðarnar.
Síðan er utaná klæðningin 22×95 sett utan um grindina allan hringinn, upp í þá hæð sem kassinn á að vera.
Nú þegar kassinn sjálfur er tilbúinn þá þarf að undirbúa hann undir matjurtirnar.
Fyrst þarf að klæða kassann að innan með takkadúk, en þetta er gert til þess að vernda viðinn fyrir rakanum sem kemur frá moldinni, og líka til þess að loka fyrir það að moldin leki ofan í raufarnar á pallettunum. Hægt er að festa takkadúkinn annaðhvort með heftibyssu, eða stuttum pappasaum nöglum með stórum haus. þegar búið er að festa hann er mjög mikilvægt að skera nokkur löng göt í dúkinn í botninn til þess að vatn getið lekið niður úr kassanum.
Í byrjun vors þegar þú sáir fyrir grænmetinu þínu þarftu að setja akrýldúk yfir kassann til þess að vernda grænmetið fyrir næturfrosti. Ef þú ert með kartöflur eða grænmeti sem vex aðallega ofan í moldinni gæti dugað að setja dúkinn beint yfir kassann. En ef þú ert að rækta t.d. kál þá er gott að setja upphækkun undir dúkinn.
Upphækkunina er hægt að búa til með því að festa spennur á langhliðina, báðum megin, ofarlega á innra máli kassans, og stinga síðan rafmagnsrörum í spennurnar til að mynda boga sem akrýldúkurinn getur lagst yfir.
Næst er sett smá lag af Sigursteinum í botninn á kassanum. (Hér er mikilvægt að steinarnir sem notaðir eru séu ekki of grófir og í góðri kornastærð) og svo er lagður Akryldúkur yfir mölina til þess að hindra moldina frá því að leka ofan í mölina.
Næst er að fylla kassann af mold, en mikilvægt er að velja rétta mold. Ef þú ætlar að rækta kartöflur í kassanum er best að setja sandblandaða mold í kassann, 70% mold og 30% vikursandur, en passa þarf þó að sandurinn sem notaður er sé ekki skeljasandur. Ef þú ætlar að rækta grænmeti í kassanum þá þarf moldarblandan að vera blanda af steinhreinsaðri mold, moltu og skeljasandi. Á höfuðborgarsvæðinu er hægt að kaupa mold sem er blönduð nú þegar í hlutföllunum 60% mold, 20% molta og 20% skeljasandur.
Þegar kemur að festingum á kassann til þess að halda akrýldúknum á sínum stað, þá hef ég prufað alls kyns leiðir. En sú leið sem mér hefur litist best á hingað til er að kaupa upphengjur og skrúfa á langhliðina á kassanum. og leggja svo 35×45 efni í hengjurnar og vefja dúknum um spítuna. En 35×45 efnið hefur ágætlega mikla þyngd í sér sem gerir að það verkum að það heldur dúknum föstum niðri svona í flestum vor veðrum.
Akrýldúkurinn þarf svo að vera á kassanum sirka fram í lok júní, en þá ætti að vera óhætt að taka dúkinn af og geyma fram á næsta vor ef hann er í góðu standi.
View this post on InstagramA post shared by Kristín Snorradóttir (@kristinsnorra) on
Ef þú hefur áhuga á að fá matjurtakassa í garðinn þinn, en getur ekki eða vilt ekki smíða hann sjálf/ur, endilega sendu mér þá línu á torfkofinn@torfkofinn.is og ég get komið honum upp fyrir þig svo þú getir einbeitt þér að ræktuninni.
Það er lítið mál að smíða þinn eigin matjurtakassa í garðinn, matjurtir eru bæði einfaldar í ræktun og kassinn er skemmtileg tilbreyting í garðinn.
Þessar aðferðir ekki eingöngu umhverfisvænar gagnvart jörðinni, heldur hafa þær heldur ekki slæm áhrif á gæludýrin okkar og fuglana í kring.
Áður en byrjað er að gróðursetja þarf að velta fyrir sér nokkrum punktum: Athugaðu aðstæður, hugsa þarf hvaða plöntur henta í beðið og staðsetninguna sem þú hefur uppá að bjóða.